Nánar:
Ég heiti Lilja og er fædd árið 1994. Ég á tvo hunda, þau Dímon (9 ára) og Terru (2ja ára). Þau eru bæði Labrador / Border Collie / líklega-eitthvað-meira blöndur.
Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á hegðun fólks og annarra dýra, og hef alltaf verið mikill dýravinur. Ég hafði því miður ekki þau forréttindi að alast upp með dýrum, en eins og mörg börn suðaði ég um hund frá unga aldri, án árangurs. Sumarið 2013, þegar ég var 18 ára, heyrði ég um lítinn hvolp sem vantaði heimili eins fljótt og mögulegt væri og ákvað að taka hann að mér. Það var hann Dímon minn. Með komu hans á heimilið jókst áhugi minn á hegðun hunda og hundaþjálfun. Við fórum á grunnnámskeið hjá Heiðrúnu Klöru, ásamt öðrum námskeiðum eins og nose work og hundafimi. Einnig höfum við leikið okkur í ýmsu öðru sporti eins og hlýðniæfingum, spori og bike-joring.
Ég kláraði BSc gráðu í sálfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2017, þar sem ég lærði einnig talsverða atferlisfræði. Ég hafði gaman af að nýta atferlisfræðiþekkingu mína í alls konar þjálfun og æfingar með Dímoni, en hann á mikinn þátt í áhuga mínum á faginu. Eftir þriggja ára námspásu þar sem ég starfaði á geðsviði Landspítala ákvað ég að klára MSc í klínískri sálfræði og skráði mig í það nám árið 2020. Þar lærði ég enn meira, sérstaklega um samspil hegðunar og líðanar, ásamt enn meiri atferlisfræði. Í byrjun árs 2021 kom svo til okkar annar hvolpur, hún Terra. Það sumar ákvað ég að skrá mig í hundaþjálfaranám hjá Victoria Stilwell Dog Training Academy (VSDTA) í Bandaríkjunum, svo þá var ég skráð í bæði MSc nám í háskóla á Íslandi, sem og hundaþjálfaranám í Bandaríkjunum. Terra var minn aðstoðarhundur í gegn um hundaþjálfaranámið, þar sem við lærðum mjög margt saman. Skilningur minn á sálfræði og atferlisfræði úr sálfræðinámi mínu auðveldaði mér mjög hundaþjálfaranámið, þar sem mikil áhersla er lögð á atferlisfræði í hvoru tveggja.
Ég hef starfað hjá HundaAkademíunni frá árinu 2021, fyrst sem aðstoðarþjálfari en svo sem hundaþjálfari eftir að ég lauk námi mínu hjá VSDTA. Ég starfa nú einnig sem sálfræðingur hjá Landspítala. Næst stefni ég á að klára MSc nám í atferlisfræði og jákvæðri sálfræði, ásamt nose work kennslu, sporun, sérhæfingu í meðferð aðskilnaðarkvíða hunda og ýmsu öðru.
Mitt helsta markmið sem hundaþjálfari er að kenna fólki jákvæðar þjálfunaraðferðir og merkjamál hunda, til að auka lífsgæði bæði manna og hunda og traust þeirra á milli. Að sýna fólki að jákvæðar þjálfunaraðferðir eru alltaf ákjósanlegri heldur en aðferðir sem notast við refsingu og hvers vegna það er. Að hvetja fólk til gagnrýnnar hugsunar, sérstaklega þegar kemur að þjálfun hunda sinna og kenninga þar um. Að vekja fólk til vitundar um sannleikann um alpha- / yfirráðakenninguna (e. dominance theory) og skaðsemi refsinga, og þá að kenna fólki aðrar og betri aðferðir til að þjálfa hundana okkar.